Hér byrjum við á að brúna smjörið en það er ofureinfalt. Setjið smjör í pott og bræðið það yfir miðlungshita. Passið að hræra stanslaust í smjörinu. Leyfið smjörinu að sjóða en þá myndast loftbólur og blandan gefur frá sér hljóð sem minna helst á brothljóð. Það gerist því vatnið er að gufa upp úr smjörinu. Leyfið því að malla í pottinum þangað til brothljóðin minnka og loftbólur hætta að myndast. Þá kemur froða á yfirborð smjörsins og litur þess breytist úr gulum í ljósbrúnan og loks dökkbrúnan. Þetta tekur um átta til tíu mínútur en passið ykkur - smjörið getur brunnið við á nokkrum sekúndum. Um leið og smjörið er orðið dökkbrúnt og lyktin af því minnir á karamellu þá er það tilbúið. Takið pottinn af hellunni og hellið smjörinu í skál. Kælið í fimmtán mínútur.
Bætið púðursykri, eggi og vanilludropum í skálina með brúna smjörinu og hrærið vel saman.
Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í annarri skál og blandið því síðan við smjörblönduna.
Blandið pekanhnetunum saman við með sleif. Nú gæti deigið verið svolítið fitugt. Gott er að kæla það í ísskáp yfir nótt en það er hægt að redda sér með því að skella því í frysti í hálftíma eða klukkutíma.
Hitið ofninn í 180°C. Klæðið bökunarplötur með smjörpappír. Búið til litlar kúlur úr deiginu og setjið á plöturnar.
Skreytið kökurnar með smá sjávarsalti og bakið í átta til tíu mínútur eða þangað til brúnir þeirra eru orðnar brúnaðar. Leyfið kökunum að kólna eða hámið þær í ykkur strax.