4 stk Nesbú eggjahvítur (130 g)
250 g flórsykur
1 tsk hvítvíns edik
160 g Marsípan (Odense ren rå marcipan)
Fylling:
1/2 líter rjómi, þeyttur
Fersk ber eða ávextir eftir smekk (t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber, rifsber)
Rifið suðusúkkulaði og örlítið af flórsykri dreift yfir berin
Ofninn stilltur á 150 gráður undir- og yfir hita. Eggjahvítur þeyttar á miðlungshraða þar til þær eru vel slegnar, þá er hraðinn aukinn og flórsykrinum blandað smátt og smátt saman við. Hvítvínsediki bætt út í. Þegar eggjahvíturnar eru orðnar stífþeyttar er marsípanið rifið með grófu rifjárni út í blandað mjög varlega saman við með sleikju. Best er að rífa lítið í einu og blanda marsípaninu þannig smátt og smátt saman við marengsinn annars er hætta að á að það fari í kekki.
Ca. 20 cm hringur teiknaður á bökunarpappír sem settur er á ofnplötu. Marengsinum er dreift á flötinn og kantarnir látnir vera aðeins hærri en miðjan. Bakað í miðjum ofni í um það bil 45 mínútur, þá er slökkt á ofninum og marengsinn látinn kólna í ofninum.
Áður en kakan er borin fram er settur þeyttur rjómi yfir marengsinn og yfir rjómann er dreift berjum, rifnu suðusúkkulaði og að lokum er örlitlum flórsykri sigtað yfir berin.
Uppskrift fengin af Eldhussogur.com